skip to Main Content
Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - [email protected]

Of fáar konur í fjármálatækni

Of fáar konur í fjármálatækni

Höfundur: Birgitte Aabo

Enginn heldur konum vísvitandi úti í kuldanum en þær eru mjög fáar í fjármálatæknigeiranum (e. fintech) og það er ekki auðvelt fyrir þær að finna fjárfesta fyrir sprotafyrirtæki. „Við hjá Copenhagen FinTech höfum rætt þetta mál og hvað við getum gert til að jafna kynjaskiptinguna,“ segir Naima Yasin, framkvæmdastjóri samfélagsmála.

Karlmaður sem er „tölvunörd“ og vinnur niðri í kjallara allan daginn með heyrnartól á höfðinu og Red Bull dós á borðinu. Þessi staðalímynd starfsmanns í tækniþróun er aðeins einn af þeim þáttum sem gera fyrirtækjum örðugt að fá nægilegan fjölbreytileika í fjármálatæknigeirann.

„Fjölbreytileiki snýst ekki aðeins um kyn en einn af þáttum hans er kyn. Við þurfum að fást við ýmis mynstur og venjur sem hafa leitt til þess að kynjadreifingin innan fjármálatæknigeirans er ójöfn,“ segir Naima Yasin, framkvæmdastjóri hjá Copenhagen FinTech, sem hýsir sprotafyrirtæki og aðstoðar þau.

„Þar sem ég er sjálf kona sem vinnur á mörkunum milli fjármála og tækni, finnst mér mikilvægt að vekja athygli á ójöfnu hlutfalli kynjanna í tækniiðnaðinum. Að segja að það halli aðeins á konur er vægt til orða tekið, þar sem munurinn er gríðarlegur,“ segir hún.

Þetta er mál sem þarf að tækla. Það er skortur á konum á öllum sviðum fjármálatækni.

„Það eru margar ástæður fyrir þessum skorti. Ein af þeim er sú að í fjármálatækni eru svo margir karlmenn og þeir eiga oft auðveldara með að sjá verðleika karlmanna og góðar hugmyndir sem koma frá þeim. Einnig eru flestir fjárfestar karlkyns og þeir velja karlmenn án þess að vera meðvitaðir um það. Það hefur komið í ljós að karlmenn leggja öðru vísi spurningar fyrir konur en fyrir menn, þegar konur eru að leita að fjárfestum fyrir verkefni,“ segir Naima Yasin.

Velmegandi konur

Þetta eru áhugaverðar staðreyndir ekki síst vegna þess að konur hafa í raun umtalsvert meiri veltu þegar þeim tekst að hasla sér völl í greininni, meðal annars vegna þess að þær taka yfirleitt minni áhættu. Fjölbreytileiki er góður fyrir viðskipti.

„Við erum ekki að skammast í neinum. Það er enginn sem vanmetur kvenfólk af tómri illmennsku. Þó er hægt að gera eitthvað í málinu. Til dæmis væri hægt að orða atvinnuauglýsingar á annan hátt. Þótt fyrirtæki ætli sér að ná til kvenna og í textanum sé tekið fram að fyrirtækið vilji auka fjölbreytileika hjá sér, eru auglýsingarnar engu að síður skrifaðar á sérstakan hátt og með kröfum sem höfða til þröngs hóps,“ segir Naima Yasin.

Þannig að aukin meðvitund um hvernig atvinnuauglýsingar eru orðaðar getur verið fyrsta skrefið til að laða að fleiri konur. Meðvitund er svo sannarlega lykilorð ef breyta þarf einhverju:

„Þetta er ekki auðvelt verkefni, og ekki heldur fyrir okkur hér í Copenhagen FinTech. Við horfum líka inn á við og vitum að við höfum sjálf verk að vinna að á þessu sviði. Það mun taka tíma – en það er mikilvægt að vera stöðugt að hamra járnið ef við ætlum að ná fram einhverjum breytingum.“

Birtist í  Finans Forbundet (www.finansforbundet.dk) 13. ágúst 2019. Þýðing Anna Heiða Palsdottir.

 

Search