skip to Main Content
Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - [email protected]

Nýr kjarasamningur SSF 1.11.2022 – 31.01.2024

Nýr kjarasamningur SSF 1.11.2022 – 31.01.2024

Eins og við sögðum frá í gær þá skrifuðum við í samninganefnd SSF undir nýjan kjarasaming í gær.

Innihald samningsins er stutt og laggott, 6,75% launahækkun frá 1. nóvember 2022 með 66 þús. kr. hámarki. Launatengdir liðir hækka um 5%.

Svo mörg voru þau orð, en sjá nánar hér 2022 Undirritaður kjarasamningur

Eftir þriggja vikna þref, sem snérist að mestu um kostnaðarauka kjarasamninga og sjálfstæði hvers stéttarfélags til að semja innan þess ramma, vorum við enn stödd á upphafspunkti.
Bankarnir höfnuðu öllum okkar kröfum, um afnám 66 þ. hámarks, um hækkun lægstu launa um lágmark kr. 40 þús.kr. (nú hækka lægstu laun um kr. 28 þús. kr.), um styttingu vikulegs vinnutíma um 20 mínútur og um 2% hækkun iðgjalds í lífeyrissjóð. Öllu hafnað.

Við í samninganefndinni tókum þá ákvörðun í gær eftir að hafa fundað með formönnum aðildarfélaga að skrifa undir samning á þessum nótum þar sem við teljum ekki skynsamlegt að ganga til aðgerða fyrir eins árs samning.
Það er einnig ljóst að hluti félagsmanna okkar getur sæmilega við samninginn unað, samningurinn gildir frá 1. nóvember 2022 og þeir sem eru í kringum miðju launastigans fá 60-66 þús. kr. launahækkun.

Samningurinn fer í atkvæðagreiðslu í dag eða á morgun og atkvæðagreiðslu lýkur á föstudag, en það munu koma nánari fréttir um það síðar. Við stefnum einnig að kynningu og spjalli á Teams eftir hádegi á morgun, einnig meira um það síðar.

Góðir félagsmenn. Staðan er því sú að við sendum þennan samning í ykkar hendur til afgreiðslu. Við vitum að skoðanir eru skiptar og við tökum þeirri niðurstöðu sem kemur.
Stjórn SSF hvetur alla til þess að taka þátt í atkvæðagreiðslunni, nýttu atkvæðið þitt og láttu ekki aðra ákveða fyrir þig. Þátttakan skiptir öllu.

Search