skip to Main Content
Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - [email protected]

Menntunarsjóður SSF – Átaksverkefni

Menntunarsjóður SSF – Átaksverkefni

47. þing SSF, sem haldið var í lok mars, samþykkti að ráðast í átaksverkefni í menntunarmálum. Átaksverkefnið sem er að lágmarki til þriggja ára tekur gildi frá og með námi sem stundað er á sumarönn 2019 en þá hækkar hlutfall endurgreiddra námsgjalda úr 50% í 80% og hámarkfjárhæð sem greidd er á önn hækkar úr 150.000 kr. í 175.000 kr.

Styrkur fyrir sumarstarfsmenn hækkar í 30.000 kr. frá og með almanaksárinu 2019 vegna náms sem stundað er á árinu 2019.

Hámarksstyrkur vegna Tómstundanáms/-námskeiða sem sótt eru frá og með 1. júní 2019 hækkar í 30.000 kr.

Tilgangur verkefnisins er að stuðla að því að félagsmenn sæki sér aukna menntun þannig að þeir verði betur í stakk búnir til að takast á við ný verkefni, hvort sem er innan fjármálafyrirtækja eða á öðrum vettvangi, vegna tæknibreytinga sem ljóst er að munu hafa áhrif á stóran hluta starfa starfsfólks í fjármálafyrirtækjum. Í skýrslunni „Ísland og fjórða iðnbyltingin” sem Stjórnarráðið gaf út fyrr á árinu kemur fram að talsverðar eða miklar líkur eru á að 86% starfa muni breytast á komandi árum vegna tæknibreytinga og 28% starfa muni breytast mikið eða hverfa alveg. Í skýrslunni segir einnig að ,,almennt má segja að því hærra sem menntunarstig einstaklings í starfi er þeim mun minni líkur séu á sjálfvirknivæðingu starfsins, til skamms tíma litið”. Hér er tengill á skýrsluna í heild: https://www.stjornarradid.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=03be6340-3bfc-11e9-9436-005056bc4d74
Mikilvægt er að fjármálafyrirtækin verði þátttakendur í átaksverkefninu með þeim hætti að félagsmenn fái aukið svigrúm til að sinna námi meðfram vinnu, til dæmis með sveigjanlegum vinnutíma tengt próftöku. Fyrirtækin sýni þannig í verki samfélagslega ábyrgð gagnvart starfsmönnum sínum sem margir hverjir hafa helgað líf sitt fyrirtækjunum og unnið þar mest alla starfsævi sína, oft á tíðum í tugi ára.

Menntunarsjóður SSF úthlutar árlega um 70 milljónum til félagsmanna en árið 2018 fengu yfir 900 félagsmenn úthlutað úr sjóðnum. Áætlað er að verðmæti átaksverkefnisins sé um 35 milljónir á ári, til viðbótar við þær 70 milljónir sem úthlutað hefur verið árlega, eða yfir 100 milljónir aukalega á næstu 3 árum sem renna beint til félagsmanna. Þess má geta að námsstyrkir eru skattfrjálsir (utan tómstundanáms).

Search