skip to Main Content
Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - [email protected]

Meingölluð íslensk lög um sjúkdómatryggingar

Meingölluð íslensk lög um sjúkdómatryggingar

Friðbert Traustason

Greinin birtist upprunalega sem aðsend grein í Morgunblaðinu og vegna fjölda áskoranna er hún endurbirt hér.

Flest öll tryggingafélög á Íslandi bjóða viðskiptavinum upp á samsettar líf- og sjúkdómatryggingar. Bótaskyldir sjúkdómar eru flokkaðir í 4 flokka:

Krabbamein, hjarta og nýrnasjúkdóma, tauga og hrörnunarsjúkdóm og aðra vátryggingaratburði. Algengt er að tryggingataki kaupi svokallaða 50/50 tryggingu, en þá er 50% af líftryggingarfjárhæðinni greidd út í eingreiðslu (skattfrjáls) ef viðkomandi veikist af einhverjum framangreindum sjúkdómum og líftryggingin til framtíðar lækkar sem eingreiðslunni nemur.

Upphaf tilkynningafrests

En það er einn stór galli á sjúkdómatryggingunni, sem verulega stríðir gegn hagsmunum tryggingataka, setur óeðlilega pressu á einstaklinginn og takamörkun á að nýta sér ákvæðin um samspil líf- og sjúkdómatryggingar.

Í lögum nr. 30/2004 segir í 124. grein: „Sá sem rétt á til bóta samkvæmt slysatryggingu, sjúkratryggingu eða heilsutryggingu með eða án uppsagnarréttar glatar þeim rétti ef krafa er ekki gerð um bætur til félagsins innan árs frá því að hann fékk vitneskju um þau atvik sem hún er reist á

Þessi ákvæði eru skiljanleg hvað varðar slysatryggingu þar sem oftast er krafist lögregluskýrslu. En að setja þessi þessi 12 mánaða tímamörk á tilkynningu vegna sjukdóms er út í hött og einungis sett til að verja hagsmuni tryggingafélagsins.

Samkvæmt ákvæðinu þarf sjúklingurinn að tilkynna og sækja um útgreiðslu sjúkdómatryggingar innan 12 mánaða frá því sjúkdómur fyrst greinist og er því enginn tími gefinn til að meta framgang sjúkdómsins og hagsmuni tryggingatakans varðandi framhalds óskertrar líftryggingar.

Árs fresturinn krafa tryggingafélaga

Eins og áður segir er þessi frestur bundinn í lög, en ákvæðin voru þannig sett inn í lögin að kröfu íslenskra tryggingafélaga, eins og sjá má í umsögn þeirra við lagasetninguna 2004. Skilmálar tryggingafélaganna vinna þannig gegn hagsmunum neytenda þar sem allir sem lenda í lífsógnandi sjúkdómum hafa um nóg annað að hugsa en tryggingaskilmála fyrstu misserin eftir greiningu sjúkdóms.

Þriggja ára tilkynningarfrestur á Norðurlöndum

Á hinum Norðurlöndunum og víðast í Evrópu er tilkynningafrestur vegna sjúkdómatryggingar þrjú ár. Íslensku tryggingafélögin eru flest með baktryggingar hjá tryggingafélögum á hinum Norðurlöndunum og því stórfurðulegt að þau gefi einungis 1/3 tíma tilkynningafrest miðað við félögin sem þau sækja baktrygginguna til.

Í Danmörk og víðar er samstarf milli heilbrigðisyfirvalda, tryggingafélaga og viðskiptavina varðandi sjúkdómatryggingar. Ef einstaklingur er greindur með einhvern framangreindan lífsógnandi sjúkdóm þá senda heilbrigðisyfirvöld viðkomandi bréf þar sem sjúklingurinn er minntur á að skoða vel allar persónulegar tryggingar til að fara ekki á mis við hugsanleg réttindi.

Ekkert slíkt samstarf er hér á Íslandi og neytendavernd almennt ábótavant.

Friðbert Traustason.

Höfundur er viðskiptavinur tryggingafélags.

Search