skip to Main Content
Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - [email protected]

Íslandsbanki gefur tölvubúnað til Sierra Leone

Íslandsbanki gefur tölvubúnað til Sierra Leone

Írunn Ketilsdóttir og Brynjar Freyr Jónasson

Íslandsbanki gaf á dögunum tölvur og tækjabúnað inn á heimili í Sierra Leone. Tveir starfsmenn Íslandsbanka, Írunn Ketilsdóttir og Brynjar Freyr Jónasson, fóru til Sierre Leone og héldu tölvunámskeið fyrir um 70 manns. Þátttakendur voru á aldrinum 14 til 47 ára en um 50% þátttakenda voru í fyrsta skipti að prófa tölvu.

Meðal þátttakenda voru ungar stúlkur af heimili fyrir munaðarlaus börn þar sem áhersla var lögð á að sýna þeim hvaða tækifæri felast í upplýsingatækni. Einnig voru tölvur afhentar í skóla fyrir fullorðið fólk sem er að fá annað tækifæri til að mennta sig, þá sérstaklega konur sem hafa verið útskúfaðar úr samfélaginu vegna misnotkunar.

Á meðan dvölinni stóð heimsóttu Írunn og Brynjar heimili fyrir munaðarlaus börn í þrígang og kenndu yfir 120 börnum taekwondo og færðu börnunum gjafir.

Ferðin til Sierre Leone er hluti af einu lykilverkefni bankans sem er Hjálparhönd. Í fréttatilkynningu Íslandsbanka segir að í verkefni Hjálparhönd veiti starfsmenn bankans góðu málefni lið í einn dag á ári en í fyrra tóku 400 starfsmenn þátt. Einnig hefur starfsmaður bankans farið reglulega með Rauða krossinum til svæða þar sem verið er að brúa tæknibilið sem hefur myndast milli þróaðra landa og þróunarlanda.

Search