skip to Main Content
Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - [email protected]

Hver er besta leiðin áfram?

Hver er besta leiðin áfram?

Hverjar eru skoðanir starfsmanna fjármálafyrirtækja í breyttum heimi?

Við sem störfum í fjármálafyrirtæjum munum tímana tvenna (eða þrenna eða ferna?). Við vorum best í heimi, féllum og byrjuðum upp á nýtt. Við höfum reyndar búið við einangrun innan fjármagnshafta, en þó hefur ýmislegt gengið á og margt á eftir að gerast. Í pólitíkinni er mikið talað um endurskipulagningu á fjármálakerfinu og staðan verður vægast sagt undarleg fari svo að ríkissjóður verði á endanum kominn með þrjá banka í hendurnar.

Norrænir félagar okkar lentu líka í fjármálakreppu, þó hún hafi ekki orðið eins djúp og hér. Þar hefur líka verið talað um endurskipulagningu á fjármálakerfum og margt hefur gerst þar líka. Meðal þeirra er sú skoðun ríkjandi að til þess að geta mætt framtíðinni með öflugum hætti sé best fyrir fjármálafyrirtækin að leggja áherslu á hefðbundið meginverkefni greinarinnar sem er að útvega einstaklingum og fyrirtækjum lánsfé. Með því væri verið að stefna að sjálfbærum árangri til langs tíma í stað þes að einblína á hámörkun hagnaðar til skamms tíma. Árangur í rekstri snýst ekki bara um ávöxtun eiginfjár heldur þarf að huga að jafnvægi á milli þess hvað starfsfólk, eigendur, viðskiptavinir og samfélagið fá fyrir sig. Þannig þyrfti að færa áhersluna yfir á góða og stöðuga rekstrarniðurstöðu.

Starfsfólkið er andlit greinarinnar

Starfsfólkið myndar kjarna fjármálaþjónustunnar. Það eru starfsmennirnir sem skapa verðmæti innan fyrirtækjanna og leika þar með lykilhlutverk í því að skapa sjálfbært og endingargott fjármálakerfi sem á að geta stutt við við samfélagið, þróun þess og uppbyggingu. Það eru starfsmennirnir sem eru alls staðar andlit greinarinnar út á við. Það eru þeir sem selja vörurnar og þjónustuna og það eru þeir sem skapa virðið fyrir viðskiptavinina og stuðla að hagvexti í samfélaginu.

Nú er töluvert rætt um norræna vinnumarkaðslíkanið á íslenskum vinnumarkaði. Styrkur þess og góður árangur byggir á traustu sambandi á milli fulltrúa starfsmanna og stjórnenda innan fyrirtækjanna. Starfsmenn eiga rétt á að vera upplýstir og geta tjáð sig um ákvarðanir innan fyrirtækjanna sem aftur eykur félagslegan styrk norræna fjármálageirans. Árangur og vöxtur greinarinnar til langs tíma byggir á starfsfólkinu og því ætti fjármálageirinn að fjárfesta meira í starfsfólki sínu, fjárfesta í störfum í stað þess að beita uppsögnum í leit að sem mestum hagnaði til skamms tíma, sem verður alltaf á kostnað bæði viðskiptavina og starfsfólks.

Það er ekki skynsamlegt að láta hvatakerfi ráða ferðinni við mikilvæg störf innan fjármálaþjónustunnar. Vænlegra væri að byggja á góðri stjórnun þar sem hæfileikar starfsmanna eru metnir og reynt að skapa heilsusamlegt og frjótt vinnuumhverfi sem stuðlar að aukinni verðmætasköpun. Ef nota þarf hvatakerfi við störf í fjármálaþjónustu verða aðferðirnar að vera gegnsæjar, sanngjarnar og „balanseraðar“ til þess að tryggja vernd viðskiptavina og heilsu starfsmanna sem best.

Þróun og menntun

Vegna mikilla breytinga í tækni og umhverfi fjármálaþjónustunnar þarf að tryggja aðgang starfsfólks að eðlilegri starfsþróun með þjálfun og þekkingarmyndun til þess að auka gæði þjónustunnar, en einnig að viðhalda starfshæfni hvers og eins. Aukin þekking, þjálfun og yfirsýn starfsmanna leiðir að öðru óbreyttu til betri verndar viðskiptavina og fjárhagslegs stöðugleika. Starfsmenn eiga rétt á því að vera upplýstir í tíma um verulegar breytingar á starfsumhverfi þeirra og þeir eiga rétt á að fá að tjá sig um slíkar breytingar. Starfsmenn hafa almennt áhuga á langtímaárangri þeirra fyrirtækja sem þeir starfa hjá og vilja gjarnan leggja sitt að mörkum til þess að sjálfbær árangur náist. Mikilvægt er að styrkja aðkomu fulltrúa starfsfólks að stjórnarstarfi fyrirtækjanna til þess að tryggja sem besta stjórnarhætti þeirra. Í kjarasamningi SSF og Samtaka atvinnulífsins er kveðið á um samráð af þessu tagi í 13. grein. Sú grein virðist hafa gleymst algerlega í öllum þeim breytingum sem orðið hafa í bönkunum á síðustu árum. Þessa grein þarf að draga fram úr myrkrinu og vinna eftir henni.

Norræna líkanið

Norræn samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja leggja áherslu á að fjármálageirinn þrói annars konar mælingu á árangri en nú tíðkast og felst í því að einblína á ávöxtun eiginfjár. Nær væri að leggja áherslu á langtíma fjárfestingu í fólki í stað kostnaðarlækkana og hagnaðar til skamms tíma. Markmið um hámörkun hagnaðar til skamms tíma ganga ekki endalaust upp, það þarf að hugsa til lengri tíma.

Norrænir starfsmenn fjármálafyrirtækja telja að norræni fjármálageirinn ætti að starfa með siðferði og heilbrigði að leiðarljósi og styðja þannig sjálfbæran árangur til langs tíma sem gagnast samfélaginu og hagkerfinu í heild. Greinin þróast nú með mjög hröðum hætti og hefur staðið frammi fyrir mörgum áskorunum, bæði hruni og hraða í þróun. Til dæmis hrista tæknibreytingar og sjálfsafgreiðslulausnir nú upp í grunni hefðbundinnar fjármálaþjónustu eins og við höfum þekkt hana. Nýir þátttakendur koma í sífellu inn á völlinn og samkeppni eykst. Samkeppni milli fyrirtækja um að veita þjónustu er auðvitað velkomin, en tryggja þarf að öll fjármálafyrirtæki sitji við sama borð hvað leikreglur varðar.

Sömu reglur allsstaðar og aukin byrði

Lög og reglur frá Evrópusambandinu mynda ramma um fjármálaþjónustuna í álfunni og það sama gildir um Ísland. Stærstur hluti regluverksins sem stjórnar greininni kemur frá stefnumörkun innan ESB. Víðtækt eftirlitskerfi, bæði á Evrópuvettvangi og á heimavelli, túlkar allt þetta regluverk og gerir kröfur og gefur skipanir í anda þess. Í öllu þessu starfi ríkir lítill skilningur á norrænum leiðum og aðferðum, t.d. lausnum á vinnumarkaði varðandi kjarasamninga og réttindi launafólks. Það er því mikilvægt fyrir samtök starfsmanna í fjármálaþjónustu að standa þétt saman til að hafa áhrif á bæði setningu regluverksins og framkvæmdar á því.

Hvað regluverkið varðar erum við enn að upplifa afleiðingar fjármálakreppunnar á árinu 2008. Regluverkið um fjármálamarkaðinn er orðið bæði flóknara og viðameira en áður var. Það lendir að miklu leyti á starfsfólkinu að fóta sig á regluverkinu og rata í gegnum það í umhverfi aukinnar samkeppni í greininni sem enn býr við mikinn skort á trausti.

Traust er lykilorð

Já, traustið er enn vandamál. Álit og trú almennings á fjármálakerfinu hefur ekki enn rétt sig af eftir hrun markaðanna. Starfsmenn þurfa enn að standa andspænis vantrausti og efa á greininni frá viðskiptavinum. Þrátt fyrir það hefur mörgum bönkum í Evrópu tekist að viðhalda markmiðum um ávöxtun eiginfjár í umhverfi þar sem hagvöxtur er lítill eða enginn. Svo virðist að eina leiðin til þess að ná þeim markmiðum innan ramma flókins regluverks sé að skera niður kostnað, aðallega með því að fækka starfsfólki. Kannast einhverjir við þessa sögu hér á landi?

Regluverkið á fjármálamarkaði er orðið mjög flókið. Kannski er það nauðsynlegt, en það þarf að vera sanngjarnt og þannig úr garði gert að það flæki hlutina ekki of mikið. Of mikil byrði vegna regluverks leiðir til of mikillar áherslu á kostnaðarlækkanir og skammtímahegðunar af hálfu fjármálafyrirtækjanna. Heilbrigð fjármálafyrirtæki eru nauðsynleg fyrir langtímaþróun og auðlegð samfélaga okkar og því verður að tryggja starfsumhverfi þar sem bæði samkeppni og eftirlit fer fram með sanngjörnum hætti. Tryggja þarf að fjármálamarkaðurinn sé bæði gegnsær og sanngjarn.

Íslenskur fjármálamarkaður á eflaust eftir að ganga í gegnum miklar breytingar á næstu árum. Það er mikilvægt að rödd starfsmanna heyrist um þær breytingar. Við getum ekki hlustað þegjandi á tillögur stjórnmálamanna og stjórnenda um þessi mál. Okkar rödd þarf að heyrast betur.

 

Ari Skúlason, 2. varaformaður SSF

Greinin birtist fyrst í SSF blaðinu í nóvember 2016

Search