skip to Main Content
Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - [email protected]

FORMENN SSF ÁVARPA AÐALFUNDI BANKANNA

FORMENN SSF ÁVARPA AÐALFUNDI BANKANNA

Nú í mars hafa bæði Ari Skúlason formaður SSF og Oddur Sigurðsson fyrsti varaformaður SSF kvatt sér hljóðs á aðalfundum Landsbankans og Íslandsbanka og rætt stöðuna í kjaramálum starfsmanna fjármálafyrirtækja undir liðnum starfskjarastefna. Þetta hafa þeir gert sem hluthafar í þessum bönkum.

Skilaboðin í þessum ávörpum voru mjög skýr og mótast mikið af þeirri framkomu sem samninganefnd SSF mætti af hálfu atvinnurekenda í viðræðum um kjarasamning í janúar. Það ætti ekki að koma neinum á óvart að helstu atriðin í ávörpum þeirra voru eftirfarandi:

  • Áralangt og hefðbundið traust á milli samningsaðila fór algerlega forgörðum í viðræðunum í janúar. Framkoma fulltrúa atvinnurekenda var með eindæmum og byggði bæði á vanþekkingu og áhugaleysi.
  •  Ljóst er að félagsmenn SSF eru mjög óánægðir með stöðu mála og eflaust tilbúnir til aðgerða í tengslum við næstu kjarasamninga.
  • Kostnaður við kjarasamning SSF er mun lægri en gerist meðal annarra fyrirtækja í landinu. Á meðan kostnaðarauki er vel yfir 8% hjá öðrum fyrirtækjum er hann vel undir 6% hjá bönkunum og öðrum fjármálafyrirtækjum.
  • Kröfu SSF um 40 þús.kr. lágmarkshækkun launa var algerlega hafnað í viðræðunum og sagt að slíkt væri ómöguleiki. Þrátt fyrir ómöguleikann hefur Íslandsbanki samþykkt 40 þ.kr. kröfuna og Landsbankinn samþykkt 45 þ.kr. lágmarkshækkun. Þarna þvælast Samtök atvinnulífisins greinilega fyrir eðlilegri þróun.
  • 66 þ.kr. þaki launahækkana er augljóslega einungis beint gegn starfsmönnum fjármálafyrirtækja. Þarna leyfa m.a. bankarnir SA að búa til sérstaka hindrun fyrir félagsmenn SSF.
  • SSF hefur hug á að endurskoða svokallað heiðursmannasamkomulag frá 2004 um kjarasamninga bankamanna. Uppsögn samkomulagsins gefur SSF meiri sveigjanleika í skipulagi verkfalla. Í stað þess að nú má einungis boða verkfall með öllum félagsmönnum yrði hægt að skipuleggja minni verkföll gegn einstökum fyrirtækjum eða einstakri starfsemi.
  • Afstaða SSF er sú að fjármálakerfið sé með mikla sérstöðu í íslensku atvinnulífi og ekki sé sjálfgefið að lausnir á vinnumarkaði sem búnar eru til fyrir aðra hópa eigi beint við um starfsmenn fjármálafyrirtækja. SSF fer ekki fram á meira en aðrir varðandi heildarkostnað við kjarasamninga en það þarf að sníða leiðandi lausnir sérstaklega að aðstæðum starfsmanna fjármálafyrirtækja. Það verður best gert innan greinarinnar með sem minnstri utanaðkomandi íhlutun.
  •  SSF fer þess vegna fram á það við bankana að þeir taki samningamálin meira í eigin hendur og láti Samtökum atvinnulífsins það ekki eftir að ráða ferðinni. Bein og ákveðin forysta bankanna í samningsgerð er besta leiðin til þess að ná hagfelldum lausnum með friðsamlegum hætti. Þannig tryggjum við áfram þá samheldni og traust sem eru aðalsmerki vel rekins fjármálafyrirtækis.
Search