skip to Main Content
Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - [email protected]

Fer í gott frí eftir hálfa öld í bankanum

Fer í gott frí eftir hálfa öld í bankanum

Þorsteinn Þorsteinsson við kveðjuhóf sem haldið var honum til heiðurs á dögunum.

Þorsteinn Þorsteinsson, svæðisstjóri fyrir Vestursvæðið, lætur senn að störfum eftir að hafa starfað í Landsbankanum í 49 ár. Aðspurður hvað hann ætli að taka sér fyrir hendur eftir bankastörfin segist hann ætla að byrja á því að taka sér gott frí. Við ræddum við Þorstein í tilefni af þessum stóru tímamótum.

Þorsteinn hóf störf í Landsbankanum árið 1969 og var starfsheiti hans sendimaður. Hann hefur komið víða við innan bankans á þessum tíma og starfað með 15 bankastjórum. „Ég átti aldrei von á því að starfa svona lengi hérna en enginn veit víst sína ævi fyrr en öll er. Ég hóf störf í Aðalbanka í Austurstræti 11 þann 13. maí 1969. Ég var í námi á þessum tíma og gerði ráð fyrir að vera í bankanum í tvö, mest þrjú ár. Starfsheiti mitt var sendimaður en það fólst í því að vísa viðskiptavinum í lánahugleiðingum inn til bankastjóranna sem þá voru þrír, og fara í sendiferðir. Sendiferðirnar voru aðallega innanhús, frá bankastjóraganginum sem nú er Kjarvalsgangurinn og út í Hafnarhvol þar sem ábyrgða- og innheimtudeild bankans var til húsa. Nú eru árin orðin 49 þótt ótrúlegt sé. Ég er búinn að starfa með 14 bankastjórum á ferlinum, Lilja er sá fimmtándi og bankinn hefur skipt þrisvar sinnum um kennitölu á þessu tíma,“ segir Þorsteinn.

„Margar áhugaverðar breytingar í starfsemi bankans“

Þorsteinn segir að á þessum tíma hafi margar áhugaverðar breytingar átt sér stað í starfsemi bankans. „Það er af mörgu að taka. Eitt af því eru tækniframfarir varðandi beinlínuvæðingu bankanna á níunda áratugnum. Þar var stigið risastórt skref. Þegar ég starfaði í Hagræðingardeild voru símamál bankans m.a. á minni könnu. Við vorum að semja við erlenda aðila um kaup á nýrri símstöð sem var orðið nokkuð tímabært. Í þessu ferli gerði ég tillögu að því að fækka símanúmerum niður í eitt aðalnúmer í stað þess að vera með á annað hundrað númera. Samhliða því lagði ég til að stofnað yrði svo kallað „Call Centre„ sem við myndum láta heita Þjónustuver. Þetta þótti tæknimönnum Símans ekki góð hugmynd og töldu næstum ógerlegt. Við gerðum þetta samt og meira þarf ekki að segja, það vita allir að þetta svínvirkaði strax frá fyrsta degi og gerir enn. Fljótlega í kjölfarið var fjöldi fyrirtækja og þjónustuaðila komin með „þjónustuver.“

„Tími stóru útibúanna að líða undir lok“

Þorsteinn bendir á að fyrir rúmum fjórum árum var tekin ákvörðun um að gera breytingar á þjónustuþáttum útibúanna með það í huga að leggja áherslu á faglega, persónulega fjármálaþjónustu og um leið að auka hlutdeild sjálfsafgreiðslulausna. „Vesturbæjarútibúið reið á vaðið og gerðist frumkvöðull þessa verkefnis. Ýmis lærdómur varð af þessu fyrsta skrefi en síðan þá hefur öllum útibúum á höfuðborgarsvæðinu verið breytt í svipað form. Gjaldkerum svo og öðrum starfsmönnum hefur fækkað mikið og virkni sjálfsafgreiðslu hefur stóraukist. Svo dæmi sé tekið þá voru 40 starfsmenn í gjaldkeradeildinni einni saman þegar ég var féhirðir í Austurbæjarútibúi.
Ég sé fyrir mér að þessi þróun haldi áfram. Tími stóru útibúanna er að líða undir lok en í þeirra stað verður smáum útibúum fjölgað sem eru sérhæfð í faglegri fjármálaráðgjöf.

Hlakkar til að sjá hvað framtíðin ber í skauti sér

Aðspurður hvað taki við eftir starfslok segist Þorsteinn ekki hafa hugsað mikið um það. „Eitthvað tek ég mér fyrir hendur en ég ætla að byrja á því að taka gott frí. Við konan mín, Guðrún Þóra Halldórsdóttir, eigum tvo syni og sex barnabörn. Guðrún vann til margra ára í Landsbankanum og hætti fyrir nokkrum árum eftir 30 ára starf. Það verður sjálfsagt nokkuð skrítið og vissulega óvanalegt að mæta ekki í bankann dags daglega en að sama skapi spennandi að sjá hvað framtíðin ber í skauti sér. Ég hlakka til þessara tíma en um leið kemur söknuður eftir að hafa starfað með öllu þessu frábæra fólki í gegnum tíðina á þessum frábæra vinnustað,” segir Þorsteinn að lokum.

Viðtalið var upphaflega birt á vefsvæði FSLÍ og er birt með leyfi Landsbankans.

 

Search