skip to Main Content
Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - [email protected]

Fastlaunasamningar – Nýtt ákvæði í kjarasamningi

Fastlaunasamningar – Nýtt ákvæði í kjarasamningi

Eftirfarandi grein 2.7.1 kom ný inn í kjarasamning SSF síðastliðið vor en í greininni er fjallað um fastlaunasamninga. Nýja greinin hljóðar svo:
,,Fastlaunasamningur er samningur um föst heildarlaun starfsmanns vegna allra starfa í þágu fyrirtækisins, þar með talið yfirvinnu. Samið er um væntanlegt vinnuframlag að baki fastlaunasamningum við ráðningu, sem getur verið mismunandi eftir þeim verkefnum sem fylgja starfi, en tekið er þar tillit til álagspunkta í starfseminni, hvort sem þeir eru mánaðarlegir, árstíðabundnir, árlegir eða með öðrum hætti. Verði á hinn bóginn ófyrirséð, tilfallandi og tímabundið vinnuálag verulega umfram það sem eðlilegt má gera ráð fyrir getur starfsmaður óskað eftir að kjör fyrir það tímabil verði skoðuð.“

Með greininni er stigið fyrsta skrefið varðandi ramma um fastlaunasamninga, en nokkuð algengt er að ágreiningur komi upp um túlkun slíkra samninga, sérstaklega varðandi mat á vinnuálagi og hversu mikil yfirvinna sé innifalin í ráðningarsamningi viðkomandi starfsmanns. Of algengt er að engin viðmið séu í ráðningarsamningi um heildarfjölda vinnustunda (á mánuði/ári). Einnig vantar yfirleitt í ráðningarsamninga ákvæði um sérstök laun vegna hugsanlegra átaksverkefna sem krefjast mikillar viðveru umfram hefðbundinn vinnudag. Með nýju greininni er starfsmönnum gert mögulegt að kalla eftir formlegu samtali um þessi álitamál og jafnframt óska eftir því að ráðningarsamningur verði nánar útfærður með skýrari viðmiðum um hvað sé innifalið í samningnum. Gott er að nýta starfsmannaviðtöl/launaviðtöl (grein 1.7 í kjarasamningi) til að ræða þessi mál en hér má finna nánari upplýsingar um slík viðtöl.

Search