skip to Main Content
Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - [email protected]

EITT MERKASTA ÚTIBÚ LANDSINS

EITT MERKASTA ÚTIBÚ LANDSINS

Mynd af Dúpuvík. Tekin á leið til Norðurfjarðar.

Mynd af Djúpuvík. Tekin á leið til Norðurfjarðar.

Á ferðalagi SSF á vordögum ársins 2015 heimsóttum við eitt merkasta útibú fjármálafyrirtækja á Íslandi, útibú Sparisjóðs Strandamanna í Norðurfirði í Árneshreppi.

Útibúið á sér afar merkilega sögu, það telst til afskekktustu útibúa landsmanna, og rekstur og starfsemi þess hefur verið innan sömu fjölskyldunnar lengstan tíma sögu þess. Við heimsóttum Þórólf Guðfinnsson, eina starfsmann útibúsins, og móður hans Ágústu Sveinsbjörnsdóttur en hún var elsti félagsmaður SSF þar til fyrir um ári síðan er hún hætti að leysa af sem gjaldkeri útibúsins eftir langan og merkan starfsaldur.

Á meðal elstu fjármálafyrirtækja landsins

Sögu útibúsins má rekja annars vegar til stofnunar Sparisjóðs Kirkjubóls- og Fellshreppa sem stofnaður var árið 1891 og hinsvegar Sparisjóðs Árneshrepps sem stofnaður var árið 1932. Í stofnsamþykkt Sparisjóðs Árneshrepps segir að ábyrgðarmenn skuli minnst vera 20 og hver þeirra ábyrgist með allt að 200 kr. svo að sjóðurinn geti staðið í skilum. Af ágóða sjóðsins skal greiða allan kostnað við stjórn hans og rekstur, en þann ágóða, sem kann að verða eftir skal lagður í varasjóð, sem standa átti straum af óvæntum útgjöldum. Þá segir þar einnig að ef meirihluti ábyrgðarmanna samþykkir á fundi, megi verja fé úr varasjóðnum til almenningsþarfa í Árneshreppi en þó ekki þannig að varasjóðurinn skerðist um meira en 15% af innistæðufé að viðbættu ábyrgðarfé. Íbúar Árneshrepps höfðu forgang að útlánum sjóðsins. Fyrstu stjórn sjóðsins skipuðu Guðjón Guðmundsson, hreppstjóri á Eyri og var hann formaður stjórnar, séra Sveinn Guðmundsson, prestur í Árnesi og Pétur Guðmundsson, oddviti í Ófeigsfirði og voru þeir tveir meðstjórnendur. Á stjórnarfundi Sparisjóðsins árið 1933 var ákveðið að fyrst um sinn yrði aðsetur Sparisjóðsins í Árnesi og að séra Sveinn Guðmundsson myndi annast daglega afgreiðslu. Hann var því fyrsti sparisjóðsstjórinn og gegndi því starfi til ársins 1936. Þá er ráðinn sparisjóðsstjóri Sigmundur Guðmundsson, bóndi í Árnesi og síðar á Melum, og gegndi því starfi til ársins 1943, þegar Guðjón Guðmundsson, hreppstjóri á Eyri, tók við starfi sparisjóðsstjóra. Guðjón starfaði allt til ársins 1971 en þá flutti hann brott af svæðinu. Um haustið það ár tekur Guðfinnur Þórólfsson, bóndi í Árnesi, við starfi sparisjóðsstjóra. Guðfinnur var faðir Þórólfs og gegndi starfi sparisjóðsstjóra þar til hann lést 1981. Þá tók Þórólfur við starfinu og var sparisjóðsstjóri til ársins 1999 en þá sameinaðist Sparisjóður Árneshrepps við Sparisjóð Strandamanna en hann varð til árið 1995 eftir að nafni Sparisjóðs Kirkjubóls- og Fellshreppa varð breytt. Sjóðurinn er í dag á meðal elstu fjármálafyrirtækja í landinu.

Starfsemin lengst af inni á heimilinu

Ágústa Sveinbjörnsdóttir og Þórólfur unnu bæði í útibúinu sem þá var staðsett á heimili þeirra frá árinu 1971. Ágústa lét af störfum fyrirum ári síðan en Þórólfur starfar þar enn en útibúið er nú í sérhúsnæði í um 15 metra fjarlægð frá heimili þeirra í Norðurfirði. „Ég var bara 16 ára gamall og faðir minn hafði tekið að sér sparisjóðssjórastarfið eftir að búið var að semja við mig um að annast allan daglegan rekstur og umsýslu. Hann var nánast að „leppa“ mig, vegna æsku minnar“ segir Þórólfur.

Árið 1971 flytur Sparisjóður Árness í Árnesið frá Eyri við Ingólfsfjörð en þá er fólk farið að flytja þaðan. Það ár flytur útibúið inn á heimili þeirra Ágústu og Guðfinns. Útibúið flytur svo með þeim árið 1982, eftir að Guðfinnur deyr, í Norðurfjörð þar sem þau mæðginin búa nú. Þegar Ágústa er spurð að því hvenær hún byrjaði í bankaþjónustunni svarar hún því til að „þetta hafi bara verið inni á heimilinu“ og því hafi hún í raun ekki haft neitt val. „Já, þetta var bara í einu herbergi í stofunni hjá okkur, þá voru engar tölvur eða neitt slíkt“ segir hún.

Ágústa og Þórólfur á heimli þeirra í Norðurfirði. Smelltu á myndina til stækka.

Ágústa og Þórólfur á heimli þeirra í Norðurfirði.
Smelltu á myndina til stækka.

Á þeim tíma var enginn fastur afgreiðslutími og viðskiptavinir komu í bankann á hvaða tíma dags. „Það var nú eiginlega verst þegar þeir voru að koma á matartímunum og maður var með fullt af fólki“ segir Ágústa. Hún segir bankaþjónustu þess tíma hafa verið allt öðruvísi og sumir viðskiptavinir voru að koma oft í viku. Þórólfur segir að fólk hafi jafnvel verið að koma á kvöldin og um helgar „enda voru ekki neinir tékkareikningar á þeim tíma, þá voru bara sparisjóðsbækur, allt handskrifað inn í þær.“ Hann bætir því við hlæjandi að þá „voru engir ferðamenn að droppa inn í gjaldeyri.“ Það voru því engir aðkomumenn sem komu til að fá þjónustu, eingöngu bændur og aðrir íbúar svæðisins. Þórólfur segist ekki hafa þekkt annað aðspurður að því hvort það hafi ekki verið sérstakt sem ungur drengur að hafa bankaþjónustu inni á heimilinu og fólk þar að sýsla með peninga. Ágústa bætir því við að þetta hafi verið allt í lagi „við höfðum stórt heimili og þá munaði mann ekkert um það þó svo að það kæmu einn, tveir eða þrír til viðbótar, það var alltaf nóg til. Þetta var bara daglegt brauð hér, þeir komu til einhverra viðskipta og fengu alltaf kaffi og með því.“ 

Rafmagns- og tölvubyltingin

„Rafmagn kemur hingað frá samveitu um miðbik áttundu áratugar, en það hafði þá verið á allflestum bæjum, bara heimilisrafstöðvar. Það er svo upp úr 1990, þá náum við tölvusambandi. Það var ekkert „online“, heldur skráð inn og sent að kvöldi“ segir Þórólfur. Hann segir að fyrst hafi netið verið keyrt á heimasímalínunni, en svo kom þessi „svokallaða háhraðanetvæðing“. Hann segir netið hjá þeim enn töluvert hægvirkara en á flestum öðrum stöðum landsins. Þórólfur hefur séð um afstemmingar fyrir Sparisjóð Strandamanna undanfarin ár og er vel meðvitaður um að það sé sjálfsagt því að þakka að enn er útibú í Árneshreppi. Hann bjó sjálfur til bókhaldsforrit í tölvunni heima hjá sér. „Ég var búinn að keyra Sparisjóðinn hér í nokkur ár, tölvukeyra bókhaldið fyrir hann, áður en við fengum hér tölvusamband. Ég smíðaði forritin sjálfur og keyrði þau í nokkur ár. Ég hef áhuga á þessu og hafði góðan stuðning frá bróður mínum, sem er tölvunarfræðingur“ segir Þórólfur. Bróðir hans, Sigurjón Guðfinnsson heitinn, vann í mörg ár hjá Reiknistofu bankanna sem tölvunarfræðingur. „Ég bjó til bókhaldsforrit sjálfur og leitaði til hans til upplýsinga, tungumálakunnátta mín er t.d. afskaplegalítil. Það er gaman að tala um það að ég hafi keyrt bankann á eigin tölvukerfi og gaman þegar þeir komu fyrst frá Bankaeftirlitinu, þegar ég var byrjaður á þessu. Þeir töldu það algerlega útilokað að þetta væri rétt, að einhver ómenntaður gemsi út í sveit gæti gert þetta. Þeir vildu fá allskonar útkeyrslur til þess að sjá hvort þetta ynni rétt“ segir hann. Bankaeftirlitið kom þá einu sinni á ári og fór yfir afstemmingar og athuguðu hvort allt væri til staðar, víxlar, skuldabréf og þessháttar. Hann segir að Bankaeftirlitið hafi tekið út forritið og séð að allt hafi virkað. Forritið fékk aldrei nafn og var svo lagt til hliðar þegar Sparisjóðurinn fór að keyra allt í gegnum Reiknistofu bankanna.

Svokallað „sveitafífl“

Þórólfur í afgreiðslu útibússins í Norðurfirði. Smelltu á myndina til að stækka.

Þórólfur í afgreiðslu útibússins í Norðurfirði.
Smelltu á myndina til að stækka.

Þórólfi er margt til lista lagt og hefur tekið að sér ýmislegt fleira en að smíða bókhaldsforrit og annast bankaþjónustu. Hann er mjög handlaginn og gerir við dráttarvélar fyrir bændur, annast pípulagnir og ýmislegt fleira. „Ég hef svosem oft þurft að redda ýmsu, eins og rafmagni, línuviðgerðum og lent í viðgerðum fyrir Símann, tengja saman strengi. Svo er maður alltaf að ditta að vélum og tækjum“ segir Þórólfur. Ágústa segist telja að hann hafi verið í öllu sem hægt er að vera í í Norðurfirði, „maður kemur víða við“ bætir Þórólfur við. „Til skamms tíma hafa allar sveitir átt svokallað „sveitafífl“ og ég leik það hlutverk hér ágætlega, því ég þarf ekki einu sinni að leika það“ segir hann og hlær.

Lokað í fyrsta sinn af óviðráðanlegum orsökum

Fyrir um ári síðan lenti Þórólfur í óhappi þegar hann fékk vír úr vírbursta í augað, tæpan sentimetra á lengd. Vírinn sat fastur í auganu í um 12 tíma þar til búið var að flytja hann suður og taka hann úr. Hann var sóttur með sjúkraflugi en færðin torveldaði flug fram eftir degi. Aðspurður sagðist hann nú ekki hafa fundið mikið fyrir þessu fyrr en það fór að blæða inn á augað. Vírinn var á endanum fjarlægður en í kjölfarið býr Þórólfur nú við skaddaða sjón. Í kjölfarið á slysinu var það í fyrsta skipti sem útibúinu var lokað vegna veikinda eða annarra óviðráðanlegra orsaka en þetta var í fyrsta sinn sem Ágústa treysti sér ekki til að leysa hann af. „Ég fór þann 19. desember og kom ekki heim fyrr en um áramót með flutningabíl til Hólmavíkur og bóndinn á Melum sótti mig þangað. Það er reynt að opna veginn frá Hólmavík að Gjögri tvisvar í viku fram að áramótum og það slapp til, þannig að ég komst heim. Eftir áramót og fram til vors er vegurinn frá Hólmavík að Gjögri ekki mokaður nema endrum og eins, og þá aðeins ef um lítinn snjó er að ræða“ segir Þórólfur sem komst á endanum til síns heima og opnaði útibúið á ný. „Ég var því ein þessi jól“ segir Ágústa. 

Gera ráð fyrir lokun

Við ræddum við þau mæðginin um lokun bankaútibúa og stöðu útibúsins í Norðurfirði. Þórólfur er fullviss um að það væri búið að loka útibúinu ef að hann sæi ekki um afstemmingarnar fyrir Sparisjóðinn. “Á meðan það er hægt að nýta mig í annað þá hefur það borgað sig að vera með útibúið opið. Ég veit ekki hvort það myndi breyta neitt rosalega miklu þó svo að það yrði lokað hér, nema þá sem snýr að því að útvega reiðufé. Hér er erfitt að halda úti hraðbanka öðruvísi en að einhver sjái um hann. Þetta er svo afskekkt að það er ekki hægt að komast héðan stóran hluta ársins. Ég held að útibúið verði hér opið næstu árin en ekki til eilífðarnóns“ segir Þórólfur.

Að því berst talið til lokunar útibúa á landinu sem þau segja að hafi áhrif á sig tilfinningalega. Ágústa segir það voðalegt að heyraaf ítrekuðum lokunum bankaútibúa og segir það sama einnig eiga við um almenna þjónustu. „Opinber þjónusta er að leggjast svo mikið af á smærri stöðum, það er verið að loka póstafgreiðslum, útibúum og verslunum. Það er það sem fer ekkert vel í mann að heyra, hvernig allt er að fara“ bætir Ágústa við. 

Góður yfirmaður

Krossneslaug í Norðurfirði.

Krossneslaug í Norðurfirði.

Talið berst að því hvernig það hafi verið að vinna fyrir son sinn sem hún býr jafnframt með. Hún segir að það hafi alltaf gengið vel sem og samskiptin við sparisjóðsstjórann á Hólmavík. „Hann Þórólfur hefur verið sæmilegasti yfirmaður“ segir hún og hann bætir því hlæjandi við að hann telji sig aldrei hafa misbeitt valdi sínu. Hún tekur undir það. Á síðustu árum hefur hún átt erfiðara með gang og því „erfiðara fyrir mig að sinna þessu vegna tölvukerfanna, þar sem ég þarf þá að fara út úr húsi. Ég hef aldrei haft áhuga fyrir tölvum. Ég hef bara verið í henni í Sparisjóðnum, fer aldrei í tölvuna hans Þórólfs hérna heima. Mér fannst verst þegar alltaf var verið að breyta hinu og þessu í kerfunum, það var alltaf að koma eitthvað nýtt. Mér hefur samt gengið vel að tala við þá ef mig vantaði aðstoð, þá hjá Þekkingu, og það tókst alltaf að gera mig skiljanlega.“ Í lok heimsóknarinnar var að sjálfsögðu ekki annað hægt en að skoða útibúið sjálft og sveitina eftir miklar kaffiveitingar á heimili þeirra mæðgina, en ritstjóra SSF fannst ansi tilkomumikið að ferðast um Árneshrepp og fræðast um lífið þar. Ekki skemmdi svo fyrir ferðalaginu að skella sér í hlýja Krossneslaug skammt frá Norðurfirði sem er fallega staðsett, við sjávarsíðuna, áður en heim var haldið.

Heimild: Gjörðabók Sparisjóðs Strandamanna, birt í 2. bindi ritraðarinnar Strandir. Útgefandi: Búnaðarsamband Strandamanna, árið 1985.

Search