skip to Main Content
Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - [email protected]

BERJUMST FYRIR JAFNRÉTTI

BERJUMST FYRIR JAFNRÉTTI

 

SAMKVÆMT LAUNAKÖNNUN SSF 2016 ER KYNBUNDINN LAUNAMUNUR“ (ÓÚTSKÝRÐUR LAUNAMUNUR KYNJANNA) 11,9%, OG SAMKVÆMT NIÐURSTÖÐU HAGSTOFUNNAR FYRIR ÁRIÐ 2016 ER LAUNAMUNUR KYNJANNAÁ ALMENNUM VINNUMARKAÐI 16,1%

Friðbert Traustason

Á sama tíma og þetta birtist okkur frá tveimur virtum fyrirtækjum, Hagstofunni og Gallup, fá  fjármálafyrirtæki gullmerki Price Waterhouse Coopers og Jafnlaunavottun BSI á Íslandi fyrir launajafnrétti, þar sem fullyrt er að launamunur kynjanna sé innan 3,0% skekkjumarka. Það er alveg útilokað að halda áfram með umræðuna um launajafnrétti á sömu nótum og undanfarna áratugi þar sem himinn og haf er á milli niðurstaðna sérfræðinga á vegum úttektaraðila. Allir aðilar, samtök launamanna, samtök atvinnulífsins, Ríkið og sérfræðingar sem vinna þær skýrslur sem koma hver með sína niðurstöðu, verða að setjast saman að borði og bera saman aðferðir við samanburð á launum kynjanna. Annars heldur þessi umræða áfram á þessum sömu tilgangslausu nótum næstu áratugi þar sem allir telja sig saklausa af mismunun en benda á að mismunurinn hljóta að liggja hjá öllum hinum. Ef við breytum ekki vinnubrögðum þá næst aldrei nokkur einasta nothæf niðurstaða, og því síður árangur. Árið 2018 voru sett ítarleg lög nr. 10/2008 „Um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna“.

Þar segir í 19. grein um launajafnrétti:

Konum og körlum er starfa hjá sama atvinnurekanda skulu greidd jöfn laun og skulu njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Með jöfnum launum er átt við að laun skulu ákveðin á sama hátt fyrir konur og karla. Skulu þau viðmið sem lögð eru til grundvallar launaákvörðun ekki fela í sér kynjamismunun. Starfsmönnum skal ávallt heimilt að skýra frá launakjörum sínum ef þeir kjósa svo. Ráðherra er heimilt að setja reglugerð 1) um nánari framkvæmd þessa ákvæðis, þar á meðal um innleiðingu staðals um launajafnrétti, svo sem varðandi hæfniskröfur til vottunarstofa og framkvæmd jafnlaunavottunar.

 Í 4. grein sömu laga segir verkefni Jafnréttisstofu vera m.a.:

a. hafa eftirlit með framkvæmd jafnréttislaga

b. vinna gegn launamisrétti og annarri mismunun á grundvelli kyns á vinnumarkaði

 Er ekki kominn tími til að efla starfsemi Jafnréttisstofu þannig að starfsmenn hennar geti sinnt þessu lagabundna hlutverki sínu?

Baráttan fyrir jafnrétti er á fleiri sviðum en launajafnrétti. Eldri hópurinn á vinnumarkaði, 60 ára og eldri, finna fyrir aldursfordómum á sama hátt og ríkti um og eftir aldamótin 2000.

Það getur ekki gengið lengur að lang flest fjármálafyrirtækin vilji ekki hafa starfsmenn eldri en 66 ára í starfsmannahópnum, en því miður er það staðan í dag. Berjumst fyrir jafnrétti á öllum sviðum, kynjajafnrétti, launajafnrétti, jafnrétti aldurshópa og jafnrétti vegna búsetu.

Friðbert Traustason, formaður SSF.

Search