skip to Main Content
Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - [email protected]

Aukið framlag í lífeyrissjóð

Aukið framlag í lífeyrissjóð

Ari skúlason, varaformaður SSF.

Þessa dagana heyrist rætt um auknar greiðslur atvinnurekenda í lífeyrissjóði vegna starfsmanna sinna og eðlilega er spurt hvort þetta gildi líka um okkur félagsmenn í SSF. Svarið er nei. Þessar breytingar eiga eingöngu við um félagsmenn ASÍ sem starfa undir samningum við SA. Núna 1. júlí kom til framkvæmda næst síðasta hækkunin á framlagi atvinnurekenda samkvæmt kjarasamningi og Salek-samkomulaginu. Ætlunin með þessu var að jafna lífeyriskjör á almenna vinnumarkaðnum (ASÍ) og þeim opinbera.

Félagsmenn SSF eru með sambærilegan lífeyrisrétt og opinberir starfsmenn, allavega hvað heildargreiðslur launagreiðenda í sjóðina varðar. Þegar SSF framlengdi kjarasamninginn í fyrra kom til álita að reyna að bæta við í lífeyrissjóð samhliða launahækkunum. Þegar þetta var viðrað við SA var svarið klárt nei af þeirra hendi. Félagsmenn SSF væru með sambærileg réttindi og opinberir starfsmenn og þyrftum enga samræmingu. Innan tiltekinna banka var gerð óformleg könnun meðal trúnaðarmanna og þeir beðnir að kanna landið með þessa spurningu og þar var svarið að fólk vildi frekar fara launahækkunarleiðina í þetta skipti (samningar 2015-2018). Niðurstaðan var því sú að laun SSF félaga hækkuðu um 5% 1. maí sl. þegar almenn laun hækkuðum um 4,5%, og 1. maí 2018 munu laun SSF-félaga hækka aftur um 5% þegar almenn laun munu hækka um 3%.

Þetta þýðir þó ekki að samningamenn SSF hafi sagt já og amen við því að lífeyrisréttindi okkar batni ekki eða breytist í framtíðinni. Fjarri því . Við eigum von á því að löggjafinn fari fljótlega að krukka í lífeyrisréttindi fólks, sérstaklega þegar allur þorri ASÍ félaga er kominn með umtalsverð réttindi í séreign. Séreignin hefur verið meðhöndluð öðruvísi en almenn lífeyrisréttindi í sambandi við tengingar við aðrar greiðslur frá hinu opinbera (Tryggingastofnun). Ríkið mun örugglega fara að fikta eitthvað í því og okkur fannst því ekki óskynsamlegt að bíða með okkar mál þangað til sá pakki fer af stað eða eftir að honum er lokið.
Stutta svarið er: Ekki meira í lífeyrissjóð fyrir okkur núna, en í staðinn fáum við meiri launahækkanir en aðrir 2017 og 2018.

Ari Skúlason, varaformaður SSF.

Search