skip to Main Content
Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - [email protected]

Ánægja í starfi skilar hagnaði

Ánægja í starfi skilar hagnaði

Ánægja í starfi skilar hagnaði – bæði fyrir starfsmanninn persónulega og í bókhaldi fyrirtækisins. Til að upplifa ánægju í starfi er þó nauðsynlegt að vinnuumhverfið sé gott og að hverjum starfsmanni líði vel, bæði andlega og líkamlega. Til að vel takist til þarf að eiga náið samstarf við vinnuveitendur.

Ánægðir starfsmenn gera viðskiptavinina og samstarfsaðilana ánægðari og auka tryggð við fyrirtækið hjá bæði starfsmönnum og viðskiptavinum.

Metnaður og ánægja í starfi auka framleiðni hvers starfsmanns og þannig verður auðveldara að takast á við áskoranir hvers dags í okkar fagi þar sem breytingar eru örar og þróun hröð. Starfsmaður sem gengur glaður til verka tryggir okkur stöðugleikann sem vinnuveitendurnir sækjast eftir – og aukin ánægja í starfi leiðir yfirleitt til færri forfalla vegna veikinda.

Fyrir vinnuveitendum er starfsánægja þáttur sem kemur skýrt fram í arðsemistölunum. Fækkun veikindadaga skilar sér í aukinni framleiðni og ánægt starfsfólk skilar árangri, er sveigjanlegt og veitir samstarfsmönnum sínum stuðning við að ljúka verkefnunum, en það er líka fljótt að skila sér inn í bókhaldið.

Á einu máli

Til að skapa ánægju í starfi og auka hagnaðinn um leið er nauðsynlegt að huga vel að starfsumhverfinu. Þess vegna vinnum við náið með vinnuveitendum – þá einkum fulltrúum frá Samtökum fjármálafyrirtækja (da. Finanssektorens Arbejdsgiverforening, FA) – og leggjum áherslu á að starfsfólki fyrirtækjanna líði vel í vinnunni. Vellíðan starfsfólks og afkoma fyrirtækisins haldast nefnilega í hendur.

Við höfum í samstarfi við FA haldið tvær ráðstefnur um þetta efni og erum sem stendur að vinna að þróun samskiptaleiða sem er ætlað að greiða fyrir samskiptum og samræðu um starfsánægju, vellíðan og arðsemi innan tiltekinna sviða hjá fyrirtækjunum. Loks má nefna að við höfum átt samstarf við FA um að þróa kynningarefni þar sem áhersla er lögð á að frammistöðumælingar þurfi ekki að draga úr vellíðan í starfi, heldur geti þvert á móti farið saman við hana, svo fremi sem stjórnendur beita mælingaverkfærunum rétt og í góðu samstarfi og samráði við starfsfólkið.

Með þína ánægju að leiðarljósi

Hjá Samtökum starfsmanna tryggingafélaga leggjum við ríka áherslu á líðan félagsmanna okkar í starfi og starfsumhverfið. Við leggjum kapp á að auka ánægju og vellíðan í starfi, bæði á vettvangi samtakanna og ekki síður í gegnum starfsmannafélög í hverju fyrirtæki fyrir sig.

Það er ekki sjálfgefið að ganga glaður til starfa á hverjum degi. Skortur á starfsánægju kemur niður á afkomu fyrirtækisins og oftast er orsökina að finna í slæmum samskiptum milli stjórnenda og starfsmanna – og innan starfsmannahópsins.

Bætt samskipti geta aukið starfsánægju í fyrirtækinu og um leið aukið framleiðnina. Hér gerir lítið gagn að panta ávexti í áskrift, koma upp líkamsræktarsal, bjóða upp á nudd eða hækka launin. Starfsánægjan fylgir ekki með í ávaxtaáskriftinni.

Hvað er það þá sem eykur ánægju í starfi?

Svarið við þessari spurningu er að hluta: Góð samskipti og góður árangur. Mat á samskiptum snýst um það hvort þú sem starfsmaður ert í góðum tengslum við nánustu samstarfsmenn og næsta yfirmann þinn. Mat á árangri lýtur að því hvort þér finnst þú standa þig í starfinu, hvort þér tekst að ljúka þínum verkum og hvort þú færð verðskuldaða viðurkenningu fyrir það.

Það er ekki aðeins stjórnendanna að skapa gott starfsumhverfi en þeir geta þó lagt línurnar. Sem starfsmaður berð þú ríka ábyrgð á að gera starfsumhverfið gott og að þú og samstarfsfólk þitt geti átt góðan vinnudag á degi hverjum. Þá skiptir öllu að huga að því hvernig við komum fram hvert við annað, hvernig við tölum saman, hvernig við vinnum saman og hvort við gefum okkur tíma til að hjálpast að eða siglum hvert sinn sjó og hugum aðeins að eigin verkum.

Eitt af því sem þú og þitt samstarfsfólk getur lagt af mörkum er að leyfa öllum að njóta sín. Maður lærir nefnilega oft mest af þeim sem ekki gera hlutina á sama hátt og maður sjálfur.

Símenntun fyrir stjórnendur

Nú er nýlokið þríhliða samningaviðræðum milli stjórnvalda, vinnuveitenda og launþega – en FTF, sem er aðalstjórnsýslueining Samtaka starfsmanna tryggingafélaga, hefur gætt hagsmuna þeirra. Í þessum viðræðum lagði FTF fram ósk um aukna símenntun fyrir alla, ekki síst stjórnendur.

Rannsóknir sýna að heil 70 prósent launþega telja þörf á að stjórnendur öðlist aukna færni í að fyrirbyggja vandamál og taka á vandamálum sem varða starfsanda og samstarf. Þeir telja einnig að stjórnendur þurfi að fá símenntun um það hvernig viðhalda skal góðu starfsumhverfi til að stuðla að úrbótum og fækka veikindadögum.

FTF telur æskilegt að slík símenntun verði gerð að skyldu og verði innleidd sem hluti af stjórnendaþjálfuninni. Markmiðið er að allir stjórnendur með mannaforráð skuli, innan árs frá því að þeir taka við stjórnunarstöðu, sækja allt að þriggja daga námskeið um starfsanda og starfsumhverfi. Það myndi stuðla að því að nýir stjórnendur verði hæfari í að skapa og viðhalda góðu starfsumhverfi. Samtök starfsmanna tryggingafélaga styðja að sjálfsögðu þessa tillögu, enda er enginn vafi á því að góð stjórnun hefur afgerandi áhrif á starfsanda í fyrirtækjum og líðan starfsmanna.

Ánægja í starfi og veikindaforföll

Nýlegar rannsóknir sýna að besta ráðið til að fækka veikindadögunum er að auka ánægju í starfi!

Marga stjórnendur skortir einfaldlega færni til að skapa umgjörð um dagleg störf þar sem hver starfsmaður fær hvatningu og getur vaxið og þróast sem einstaklingur. Allt of marga stjórnendur skortir menntun á sviði stjórnunar, en þeir geta þó verið mjög hæfir – faglega – á sínu sviði. Að vera góður stjórnandi felst hins vegar ekki bara í að vita allt um verkefnin sem eru á borðum starfsmannanna. Sumir búa yfir eðlislægri samskiptafærni og þeim lætur vel að hvetja aðra en aðrir geta þurft að tileinka sér slíka færni, jafnvel seint á starfsferlinum.

Það á helst að vera gaman í vinnunni og samstarfið á milli þín og samstarfsmannanna batnar ef þið getið umgengist eins og vinir, en ekki bara fólk sem þú verður að vinna með. Undirstöðuatriðið er öruggt umhverfi og árangursmiðaður andi þar sem þú færð hrós þegar vel tekst til.

Stjórnendur ættu aldrei að líta á það sem einhvers konar góðverk að stuðla að ánægju starfsmannanna. Þeir eiga að gera það vegna þess að það er skynsamlegt fyrir alla – og það eykur arðsemi fyrirtækisins.

Vinnustaðurinn getur virkað ágætlega sem heild þótt einhverjir starfsmannanna séu ekki í toppformi, en ef stjórnandinn er áhugalaus er það vandamál allra – ekki síst fyrirtækisins.

Við hrífumst flest af góðum stjórnanda – manneskju sem hvetur, sameinar og þróar starfsmannahópinn. Allt öðru máli gegnir um slæma stjórnendur, því slæmur stjórnandi getur ekki farið fyrir öðrum og veitt handleiðslu eða hvatningu. Sem manneskjur höfum við tilhneigingu til að forðast slíka stjórnendur. Það er því mikilvægt að fyrirtæki leggi áherslu á góða stjórnun – og tryggi þeim sem ekki hafa náð fullum tökum á stjórnandastarfinu stuðning og handleiðslu. Hvert fyrirtæki þarf góða stjórnendur sem geta hvatt starfsfólk sitt til góðra verka.

Lone Clausen, varaformaður Samtaka starfsmanna tryggingafélaga (da. forsikringsforBundet).

Greinin birtist fyrst í 3. tbl. Forsikring 2016.

Search